Geopark-vika á Reykjanesi 27. maí - 8. júní 2019

 

Dagana 27. maí - 8. júní 2019 fer fram Geopark-vika á Reykjanesi í sjöunda sinn. Sambærilegar vikur fara fram í öllum evrópskum geopörkum um þetta leyti árs. Markmiðið er að gefa íbúum og gestum kost á að kynnast jarðsögu og menningu svæðisins með fjölbreyttum uppákomum.

Alla viðburði og upplýsingar um þá má einnig nálgast á Facebooksíðu Reykjanes UNESCO Global Geopark.

27.5-8.6 – Reykjanes Geopark í bókum

Bókasöfnin fimm á Suðurnesjum munu dagana 27. maí – 8. júní kynna sérstaklega bækur sem fjalla um sögu, mannlíf, náttúrufar og útivist í Reykjanes Geopark.

27.5 – Útivist í Geopark – Hraunahringurinn með Wappinu og Veseni og vergangi

Fyrsta ganga sumarsins á vegum Útivist í Geopark. Gengið er um svæðið þar sem Mið-Atlantshafshryggurinn rís úr sæ. Gengið er frá bílastæði við Reykjanesvita um misgengi á mörkum Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans, að vitanum á Skemmum, yfir Skálafell og að Gunnuhver áður en haldið er til baka að bílastæðinu við Reykjanesvita. Vegalengd: 7 km. Hækkun: 58 m. Erfiðleikastig: meðal.

1.6 – Eldfjalladagur jarðvanga í Evrópu – Fræðslufundur í Duus safnahúsi

Í tilefni af eldfjalladegi jarðvanganna í Evrópu býður Reykjanes jarðvangur upp á fræðsluerindi og umræður fyrir íbúa og aðra gesti í bíósalnum í Duus safnahúsi kl. 10:30-12:00. Boðið verður upp á kaffi og kaffiveitingar.

Daníel Þórhallsson meistaranemi í jarðfræði við Háskóla Íslands kynnir meistaraverkefnið sitt ,,Jarðfræði fyrirbrigði og breytingar á Reykjaneshrygg‘‘.

Elísabet Pálmarsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands flytur erindið ,,Náttúruvávöktun á Reykjanesi – vöktun og virkni síðustu ár‘‘

Þóra Björg Andrésdóttir, jarðfræðingur og safnkennari hjá Náttúruminjasafni Íslandi flytur erindið ,,Eldvirkni og eldgosavá á Reykjanesskaga‘‘

3.6 – Námsferð fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu

Mánudaginn 3. júní n.k standa Reykjanes Geopark og Markaðsstofa Reykjaness fyrir kynnisferð um Reykjanesið fyrir starfsfólk upplýsingaveita og ferðaþjónustufyrirtækja. Markmið með námskeiðinu og ferðinni er að efla þátttakendur í upplýsingagjöf og þjónustu við gestinn en ekki síst að gefa þeim tækifæri á að fræðast meira um Reykjanesið. Skráðu þátttöku með því að senda póst á markadsstofa@visitreykjanes.is

5.6 – Fugla og fjöruferð með Þekkingarsetri Suðurnesja

Fugla- og fjöruferð á Garðskaga frá kl. 17-18. Sölvi Rúnar Vignisson, líffræðingur hjá Þekkingarsetri Suðurnesja mun leiðbeina fólki við fuglaskoðun og fræða það um lífríki fjörunnar. Nauðsynlegt er að vera í vatnsheldum skóm og gott að hafa með sér sjónauka til að skoða fuglana. 

8.6 – Fjölskylduratleikur með Þekkingarsetri Suðurnesja

Fjör í fjörunni í Þekkingarsetri Suðurnesja. Skemmtilegur ratleikur fyrir alla fjölskylduna sem fer fram í Þekkingarsetrinu og nágrenni þess og tekur um klukkustund. Nauðsynlegt er að vera á bíl og klædd í samræmi við veður. Ókeypis aðgangur verður að sýningum setursins fyrir þá sem taka þátt í ratleiknum sem verður í boði frá kl. 13-17.

8.6 – Hreinsum Krossvík – Dagur hafsins  

Blái herinn, Reykjanes Geopark og Samband fyrirtækja í Sjávarútvegi (SFS) standa að hreinsunarátaki í Krossvík í tilefni af Degi hafsins frá kl. 13:00 – 15:00. Þeir sem vilja leggja átakinu lið eru boðnir hjartanlega velkomnir með í för. Við bendum á að nota fjölnota hanska sem hægt er að þvo eftir hreinsunina, auk þess sem fjölnota innkaupapokarnir henta vel undir smærra rusl. Þá viljum við benda fólki á að vera í góðum skóbúnaði þar sem undirlag getur verið varasamt í fjörunni og klæða sig eftir veðri.

Fiskikör verða á svæðinu til að losa úr pokunum. Eftir hreinsun verður þátttakendum boðið upp á hressingu.

Sérstaklega er vakin athygli á því að þessi hreinsun hentar yngstu kynslóðinni illa þar sem svæðið getur verið erfitt yfirferðar og það tekur um 25 mínútur að ganga í víkina. Þátttakendum er bent á bílastæðið við Gunnuhver að austanverðu.

Við hvetjum ykkur til að taka þátt og fá sem flesta með í för.