Geopark-vika á Reykjanesi 4.-9. júní 2018

 

Dagana 4.-9. júní 2018 fer fram Geopark-vika á Reykjanesi í sjötta sinn. Sambærilegar vikur fara fram í öllum evrópskum geopörkum um þetta leyti árs. Markmiðið er að gefa íbúum og gestum kost á að kynnast jarðsögu og menningu svæðisins með fjölbreyttum uppákomum.

Alla viðburði og upplýsingar um þá má einnig nálgast á Facebooksíðu Reykjanes UNESCO Global Geopark.

MÁNUDAGUR 4. JÚNÍ
Reykjanes Geopark í bókum
Bókasöfnin fimm á Suðurnesjum munu dagana 4.-9. júní kynna sérstaklega bækur sem fjalla um sögu, mannlíf, náttúrufar og útivist í Reykjanes Geopark. Bókasöfnin eru alhliða upplýsinga- og menningarstofnanir þar sem íbúar og gestir hafa aðgengi að menningu og þekkingu, m.a. um næsta nágrenni. Nálgast má upplýsingar um opnunartíma safnanna á heimasíðum sveitarfélaganna. Nánari upplýsingar er að finna hér.

ÞRIÐJUDAGUR - athugið breytta dagsetningu - frestað til 12. júní.
Námsferð fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu
Undanfarin ár hafa Markaðsstofa Reykjaness og Reykjanes Geopark boðið starfsfólki í ferðaþjónustu í námsferð um Reykjanesskaga í byrjun júní. Ferðin hefst í Duushúsum í Reykjanesbæ kl. 8:30 og er áætluð heimkoma milli 16 og 17. Líkt og áður verða þátttakendur kynntir fyrir þeirri þjónustu sem er í boði á svæðinu og áfangastöðum innan Reykjanes Geopark. Skráning í ferðina fer fram hér.

MIÐVIKUDAGUR 6. JÚNÍ KL. 12:00
Umræðufundur um nýtt mat á eldgosavá á Reykjanesi vestur
Reykjanes Geopark stendur fyrir umræðufundi með Msc. Þóru Björgu Andrésdóttur, Ingibjörgu Jónsdóttur og Ármanni Höskuldssyni úr Eldfjallafræði- og náttúruvárhópi Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands miðvikudaginn 6. júní nk. kl. 12:05. Umræðuefnið er nýtt mat á eldgosavá á Reykjanesi vestur. Fundurinn fer fram í Kvikunni í Grindavík. Boðið verður upp á léttan hádegisverð. Fundurinn er öllum opinn.

FIMMTUDAGUR 7. JÚNÍ KL. 20:00
Drauga- og tröllaganga á Reykjanesi
Íbúum og gestum er boðið í létta drauga- og tröllagöngu um Reykjanes fimmtudagskvöldið 7. júní. Gangan hefst við bílastæðið við Gunnuhver kl. 20:00 og tekur um tvær klukkustundir. Gengið verður um næsta nágrenni Gunnuhvers og og Reykjanesvita. Eggert Sólberg Jónsson, þjóðfræðingur og forstöðumaður Reykjanes Geopark mun leiða gönguna. Nánari upplýsingar má finna hér.

FÖSTUDAGUR 8. JÚNÍ KL. 17:00
Samfélagsvísindi á Suðurnesjum - Almenningur kortleggur sílamáfavarp á Miðnesheiði
Þekkingarsetur Suðurnesja og Náttúrustofa Suðvesturlands vinna að innleiðingu samfélagsvísinda, þ.e. vísindalegrar þekkingar sem er að fullu eða hluta unnin af almennum borgurum. Verkefnið er unnið að erlendri fyrirmynd og er fyrsti liðurinn þátttaka almennings í kortlagningu sílamáfavarps á Miðnesheiði. Kortlagningin fer fram föstudaginn 8. júní nk. milli kl. 17 og 21 og býðst almenningi að taka þátt.

Hópurinn hittist í Þekkingarsetri Suðurnesja, Garðvegi 1 í Sandgerði og fær þar fræðslu um rannsóknina, framkvæmd hennar og viðfangsefnið sílamáfinn. Að því loknu er haldið að Rockville þaðan sem gengið er um Miðnesheiðina.

Þátttakendur þurfa að vera í góðum skóm, klæddir í samræmi við veður og gott er að hafa nesti. Þeir sem eiga GPS tæki mega gjarnan hafa það með sér. Skráning fer fram hér.

LAUGARDAGUR 9. JÚNÍ
Bláa Lóns Áskorunin 2018
Bláa Lóns Áskorunin er stærsta fjallahjólakeppni ársins á Íslandi. Það er áskorun en ekki síður afrek, að ljúka hinni 60 kílómetra leið, frá Völlunum í Hafnarfirði og að Svartsengi í Grindavík. Keppnin hefur farið fram árlega síðan 1996 og nýtur mikilla vinsælda. Fjölmargir erlendir þátttakendur leggja leið sína til Íslands til þess að taka þátt í keppninni. Grindvíkingar og gestir þeirra geta t.d. fylgst með um 700 keppendum bruna gegnum bæinn á leið sinni í Bláa Lónið að kvöldi 9. júní. Nánari upplýsingar er að finna hér.