Algengar spurningar

Hverjir standa að Reykjanes Geopark?

Reykjanes Geopark er sjálfseignarstofnun frá fimm sveitarfélögum og sex hagsmunaðilum sem eru aðilar að stofnuninni. Sveitarfélögin fimm eru Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar. Ásamt sveitarfélögunum eru Heklan - atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, Ferðamálasamtök Reykjaness, Bláa Lónið, Þekkingarsetur Suðurnesja, Keilir - miðstöð vísinda fræða og atvinnulífs auk HS Orku aðilar að Reykjanes Geopark.

 

Hver er ávinningurinn af aðild að EGN/GGN?

Stefna sveitarfélaganna á Reykjanesi og ferðaþjónustunnar á svæðinu er að leggja áherslu á jarðminjar svæðisins og vellíðunar ferðamennsku í markaðsstarfi og uppbyggingu innviða. Við erum GEO, með flekaskilin, gígaraðir, háhitasvæði, jarðvarmann og Bláa Lónið. Við erum líka með frábæra náttúru og aðstöðu til vellíðunar ferðamennsku. Hreyfing, slökun, hugleiðsla og spa er okkar aðalsmerki. Við viljum auka vitund íbúa og gesta á sérstöðu Reykjanesskagans í jarðfræðilegu tilliti og koma sögu svæðisins á framfæri. Þetta er m.a. gert með aukinni fræðslu og styrkingu innviða ferðaþjónustunnar.

 

Eru aðrir Geoparkar á Íslandi?

Katla Geopark hefur verið aðili að European og Global Geoparks Network frá 2012. Frá þeim tíma hefur mikill uppgangur verið á svæðinu í ferðaþjónustu, uppbyggingu innviða og staðbundinni fræðslu. Katla Geopark nær yfir sveitarfélögin Rangárþing eystra, Mýrdalshrepp og Skaftárhrepp. 

Einnig hefur verið unnið að stofnun geoparks í uppsveitum Borgarfjarðar, þ.e. Saga Geopark. Saga Geopark hefur ekki sótt um aðild að EGN/GGN.