Landslag og jarðfræði

Reykjanesskaginn er ungur hluti Íslands, um 2.000 ferkm að flatarmáli. Hann er þurrlendishluti Mið- Atlantshafshryggjarnins, mjög eldvirkur eins og neðansjávarhlutinn. Út frá honum rekur tvær jarðskorpuplötur (-fleka) í gagnstæðar áttir, að meðaltali 2,0-2,5 cm á ári.

Á skaganum er að finna mörg móbergsfjöll og -fell frá jökulskeiðum á síðari hluta kvarteru ísaldarinnar, og enn fremur hraun og eldstöðvar af hlýskeiðum, einkum nútíma (sl. 11.500 ár).

Fjögur ílöng eldstöðva- og sprungukerfi skera skagann, frá SV til NA, með opnum sprungum, siggengjum, háhitasvæðum og gossprungum, með gígum úr gjalli og hraunkleprum. Margar, misstórar hraundyngjur hafa myndast í kerfunum, sumar úr frumstæðri kviku úr möttli jarðar (pikrítí). Eldsumbrot eru þekkt í þremur vestustu eldstöðvakerfunum, í löngum hrinum, á 10/11. öld, 1151-1180 og 1210-1240.