Jarðvangurinn okkar

Reykjanes jarðvangur nær yfir allt land sveitarfélaganna Grindavíkurbæjar, Reykjanesbæjar, Voga og Suðurnesjabæjar. Jarðvangurinn er samstarfsvettvangur sem byggir á því að nýta sérstöðu svæðisins, þ.e. merkilega jarðfræðiarfleið og einstaka jarðsögu, til verðmætasköpunar. Í tilfelli Reykjanes jarðvangs er það Atlantshafshryggurinn, flekaskilin og afleiðingar þeirra.

Lögð er áhersla á að koma sérstöðunni á framfæri með það að markmiði að upplýsa gesti um jarðfræðiarfleiðina ásamt sögu og menningu svæðisins. Um leið er reynt að vekja samfélagið til umhugsunar um þau tækifæri sem felast í nærumhverfinu til að styrkja stoðir fjölbreyttrar atvinnustarfsemi, s.s. ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu o.fl.

Reynslan sýnir okkur að þar sem vel hefur verið staðið að stofnun jarðvanga hafa þeir verið lyftistöng fyrir samfélög. Efnahagsleg áhrif eru sjálfbærni, traustari stoðir í ferðaþjónustu, framleiðslu og afleiddum störfum, sér í lagi utan háannar. Fyrirtæki geta nýtt sér þá vinnu sem fram fer á vegum jarðvangsins, m.a. kortlagningu og skipulagningu á sviði jarðvísinda, náttúrufræði, menningar og sögu í sinni vöruþróun. Þau geta jafnframt nýtt sér merki og nafn jarðvangsins í markaðssetningu vörum sínum til framdráttar uppfylli þau þær kröfur sem gerðar eru til notkunar á merkinu.

Um leið og því sem staðbundið er, náttúra og menning, fær hærri sess í samfélaginu eykst þekking á því og nærumhverfinu. Það skilar sér í jákvæðari sjálfsmynd og stolti. Þá eykst áhugi ferðamanna á svæðinu sem skilar sér í fjölbreyttarara vöruframboði sem aftur skilar sér til samfélagsins. Jarðvangur er tækifæri til að blása til sóknar byggða sérstöðu Reykjanesskagans.

Stefnt er að aðild og í leiðinni vottun frá alþjóðlegum samtökum jarðvanga, Global Geoparks Network og European Geoparks Network. Samtökin eru studd af UNESCO. Skilgreiningin á hugtakinu „geopark“ er jafnframt frá þessum samtökum komin.