Reykjanes Geopark gefur út bók

Reykjanes UNESCO Global Geopark hefur gefið út veglega bók um Reykjanes þar sem finna má fjölda ljósmynda af einstökum Reykjanesskaganum og tilvísanir í menningu og sögu þessa landshluta sem kalla má hliðið inn í landið.

Í bókinni er tvinnað saman náttúru og landslagi, menningu og fólki sem og nýsköpun og atvinnu til að gefa nokkra mynd af þessu samfélagi suður með sjó. Landslagið er eldbrunnið og hrjóstrugt við fyrstu sín og hefur því verið líkt við tunglið, gott ef æfingar fyrir tunglgönguna hafi ekki farið fram þar, en þegar betur er að gáð birtist ægifegurð skagans sem er einstök í hrikaleik sínum. 

Bókin gefur tónlistararfi Suðurnesjamanna góð skil en þar eru birtir textar vinsælla dægurlaga allt frá 7. áratuginum og fram til dagsins í dag en þar má nefna Rúnar Júlíusson, Villa vill, Jóhann Helgason, Valdimar og Of Monsters and Men. Einnig eru birtir textar eftir þekkt skáld sem tengjast Reykjanesi á einn eða annan hátt og má þar nefna ljóðskáldið Stein Steinarr sem starfaði sem vitavörður á Reykjanesvita, elsta vita landsins, um nokkurt skeið, Hannes Sigfússon sem skrifaði bókina Strandið um einn mannskæðasta skipskaða sögunnar við Valahnuúk, Jón Kalman og Guðberg Bergsson auk þess sem segja má að þar hafi Hallgrímur Pétursson stigið fyrst fram á sviðið sem trúarskáld þegar hann orti um dóttur sína og hjó henni minningarstein á Hvalsnesi. 

Ljósmyndirnar eru að mestu leyti teknar af Þránni Kolbeinssyni sem býr í Grindavík og hefur honum tekist að gefa okkur nýja sýn á Reykjanes. Voru þær unnar í samstarfi við Markaðsstofu Reykjaness og Hekluna, atvinnuþróunarfélag

Suðurnesja og var þeim ætlað að gefa fjölbreytta mynd af samfélagi og náttúru sem á sér engan líka. Lögð var áhersla á að gefa mynd af samspili manns og náttúru og hvernig það samtal verður til hvort sem það er á brimbretti í öldunum út af Grindavík, sjósund við sólsetur á Garðskaga, kajak á Kleifarvatni eða dýfa í djúpan hyl á heitum sumardegi.

Reykjanes Geopark afhenti sveitarfélögunum á Suðurnesjum bókina nýverið.

1

Um er að ræða metnaðarfullt bókverk sem allir ættu að hafa gaman af því að eiga. Þá er bókin tilvalin til gjafa fyrir fyrirtæki og stofnanir á Reykjanesi og víðar, frekari upplýsingar um magnkaup: info@reykjanesgeopark.is.

Almenn sala hefst á næstunni á vefsíðu Reykjanes Geopark á www.reykjanesgeopark.is og öðrum sölustöðum, nánar um það síðar.