Geoparkvika á Reykjanesi 6.-11. júní 2016


DAGSKRÁ VIKUNNAR:

ALLA VIKUNA
Reykjanes Geopark í bókum
Bókasöfnin fimm á Suðurnesjum kynna bækur sem fjalla um sögu, mannlíf, náttúrufar og útivist í Reykjanes Geopark alla dagana. Nálgast má upplýsingar um opnunartíma safnanna á heimasíðum sveitarfélaganna.

MÁNUDAGUR 6. JÚNÍ
WAPP-ganga á Keili
Keilir er einkennisfjall Voga og Reykjanes Geopark. Hin sérstaka keilulaga lögun fjallsins gerir það mjög áberandi og það sést víða að. Til að komast að Keili þarf að keyra Reykjanesbraut (nr. 41) og beygja af veginum á sama stað og ef ætlunin væri að fara Vatnleysustrandarveg (nr. 420) en vegurinn að Keili er við sömu gatnamót en fer í gagnstæða átt. Áberandi skilti við veginn vísar á Keili. Sjálfur vegurinn er grófur og holóttur malarvegur. Hann er þó fær flestum bílum á sumrin en minni bílum þarf að keyra mjög hægt þessa rúmu 8 km að bílastæðinu við nyrðri enda Oddafells. Við hittumst á bílastæðinu kl. 19.

Gangan sjálf er við flestra hæfi og Keilir er alls ekki jafn erfiður og brattur eins og gæti sýnst úr fjarlægð. Byrjað er á því að ganga nokkuð greiðfæra 3 km leið að fjallinu og svo tekur við ganga upp eftir slóðum í skriðunum í hlíðum Keilis. Fólk rennur aðeins til í skriðunum og hugsanlega þarf að nota hendurnar líka á nokkrum stöðum svo að lofthræddir gætu stífnað en flestir eiga að komast upp með góðri hvatningu samferðafólks. Vegalengdin er ca 7 km og heildarhækkun ca 250 m. Gera má ráð fyrir tveimur og hálfum til þremur tímum í gönguna. Einar Skúlason annast leiðsögn.

ÞRIÐJUDAGUR 7. JÚNÍ
Hópsneshringurinn
Hópsnes er heillandi náttúru- og útivistarperla við Grindavík. Allir þeir sem ganga, hlaupa, hjóla eða skokka hringinn eftir kl. 16 fá frítt í sund í Sundlaug Grindavíkur.

MIÐVIKUDAGUR 8. JÚNÍ
Gönguferð frá Gunnuhver að Háleyjabungu 
Háleyjabunga er 25m djúp og fallega mynduð dyngja þar má finna langt að komið berg með afar sérstökum kristöllum. Þaðan er gengið með ströndinni út að Skarfavita og þaðan að Reykjanesvita þar sem stendur til að byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn. Boðið er uppá rútu kl. 19:00 frá Hópferðum Sævars, Vesturbraut 12 í Reykjanesbæ. Kostnaður við rútu er 1.000 kr. Lagt verður af stað frá bílastæði við Gunnuhver kl. 19:30. Leiðsögumaður er Rannveig L. Garðarsdóttir.

FIMMTUDAGUR 9. JÚNÍ
Námskeið fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu
Reykjanes jarðvangur og Markaðsstofa Reykjaness standa fyrir námskeiði fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu á Reykjanesskaga. Námskeiðið hefst kl. 8:30 og er í formi kynnisferðar um svæðið. Skráning og nánari upplýsingar á markadsstofareykjaness.is.

Bókmenntaganga frá Bókasafni Reykjanesbæjar
Ragnhildur Árnadóttir bókasafnsfræðingur og Rannveig Lilja Garðarsdóttir leiðsögumaður leiða gönguna en farið verður á söguslóðir úr bókinni Fiskarnir hafa enga fætur eftir Jón Kalman Stefánsson. Saga bókarinnar gerist að stórum hluta í Keflavík og ætla þær stöllur að ganga með hópinn um helstu staði sem tengjast sögunni. Gangan hefst kl. 19:30 og verður gengið frá Átthagastofu í Bókasafni Reykjanesbæjar. 

FÖSTUDAGUR 10. JÚNÍ
Útgáfuhóf í tilefni nýs gönguleiðakorts
Unnið hefur verið nýtt göngu- og útivistarkort fyrir Reykjanes UNESCO Global Geopark. Í tilefni af útgáfu kortsins verður boðið til útgáfuhós föstudaginn 10. júní kl. 14 í Gestastofu Reykjanes Geopark í Duushúsum í Reykjanesbæ.

LAUGARDAGUR 11. JÚNÍ
Bláa Lóns Áskorunin 2016
Bláa Lóns Áskorunin er stærsta fjallahjólakeppni ársins á Íslandi. Það er áskorun en ekki síður afrek, að ljúka hinni 60 kílómetra leið, frá Völlunum í Hafnarfirði, gegnum eystri hluta Reykjanes UNESCO Global Geopark að Svartsengi í Grindavík. 
Nánari upplýsingar er að finna á bluelagoonchallenge.is.

Bókmenntaganga frá Bókasafni Reykjanesbæjar
Ragnhildur Árnadóttir bókasafnsfræðingur og Rannveig Lilja Garðarsdóttir leiðsögumaður leiða gönguna en farið verður á söguslóðir úr bókinni Fiskarnir hafa enga fætur eftir Jón Kalman Stefánsson. Saga bókarinnar gerist að stórum hluta í Keflavík og ætla þær stöllur að ganga með hópinn um helstu staði sem tengjast sögunni. Gangan hefst kl. 19:30 og verður gengið frá Átthagastofu í Bókasafni Reykjanesbæjar.